Rafbílarekstur á Íslandi

Fyrir ári síðan keypti ég Volkswagen E-Up! og vildi gjarnan fara yfir það sem ég lærði um rekstur rafbíla síðan.

Hleðsluaðferðir

Hleðsluaðferð 3 - riðstraumshleðsla, þrífasahleðsla eða hraðhleðsla

Hleðsluaðferðir 1 og -2 hafa verið teknar úr umferð, hleðsluaðferð 1 yfirleitt, og hleðsluaðferð 2 er aðeins ráðin í neyð, m.a. vegna brunahættu. Hleðsluaðferð 3 er staðall þar sem sérstök hleðslustöð veitir riðstraum og gögn um hversu mikið álag bíll getur haft á stöðina, þ.e. "þessi stöð er bara með svo-og-svo þykkan kapal, ekki draga meir en 11 kW". Upprunalega voru settar upp sérstakar stöðvar á staur með tengi, en nú er hægt að kaupa stöð á kapli, og mér skilst að þær fylgi með nýrri bílum.

Til að hætta að hlaða þarf eingöngu að smella bíl úr lás- já, jafnvel ef hann er ólæstur - og svo toga kapalinn úr sambandi bílmegin. Stöðin sér þá að kapallinn er ótengdur og tekur tengið sín megin úr lás.

Þetta eru einföld tæki, stöðin spyr bílinn hvort eigi að koma rafmagn, gáir hvort allt sé í lagi, og smellir rafmagninu á. Hleðslurás í bílnum sjálfum sér um restina. En nú fyrst að rásin á að komast fyrir í bílnum þá er hún ekki fljótust að hlaða: Smærri bílar taka yfirleitt einn fasa og hlaða 7 kW, hleðslutækið í E-Up! 2015 er 3,6 kW, en stærri bílar geta ráðið við þrífasa og hlaða 11-22 kW með eigin hleðslutæki. Viðmiðið er að full hleðsla úr tómum rafgeymi taki ca. 4 klst. og verð sé 24 kr/kWst heima fyrir, en 26 kr/kWst á almenningsbílastæðum, og tímagjald þar á ofan.

Hleðslustöðvar N1 merkja þessi tengi "43 kW" en það er framboð, og enginn bíll á eftir að hafa svo háa eftirspurn. Bíllinn sér um að takmarka strauminn í hleðslu, hindrar ofálag, tryggir að kapall sé tengdur áður en byrjað er að hlaða, og flestallt annað sem snýr að öryggi. Kaplar fyrir hleðsluaðferð 3 fylgja með bíl og eru með tengi og kló sittkvorumegin. Kaplar hér á landi eru framleiddir eftir evrópskum "gerð 2" staðli og passa í gerðar 2 tengin á Nissan Leaf, og 7 efri pinna CCS 2 tengis sem er á nær öllum rafbílum nú til dags.

Hleðsluaðferð 4 - jafnstraumshleðsla eða ferðahleðsla

CCS 2 tengið er einnig með 2 mjög stóra pinna í viðbót að neðan, og með þeim er hægt að notast við hleðsluaðferð 4. Eða jafnstraumshleðsluaðferð 1. Fer eftir því hvern þú spyrð. Ég kalla þetta ferðahleðslu því að í langferðum er þessi aðferð algjör nauðsyn.

Þá er hleðslurásin öllsömul utan bílsins í stórum tengiskáp, en bíllinn gáir að urmul öryggisatriða. Afgreiðslustaur sér svo um að taka við greiðslu, halda utan um fasttengda kaplana, og kæla þá. Kaplarnir á öflugri stöðvunum eru vatnskældir svo þeir geti verið mjórri og auðveldari í meðhöndlun. Öryggisrás í bílnum sendir gögn um stöðu rafgeymisins, sem fara með sama kapli gegnum afgreiðslustaur í hleðslurásina, svo hleðsla fari á réttum hraða og hætti ef eitthvað fer að hitna. Ferðahleðslustöðvar gáfu fyrst að sinn 50 kW og tóku yfirleitt 45 mínútur að hlaða tóman rafgeymi en með tilkomu NCL-skauta þekkjast bílar sem geta tekið 350 kW og fullhlaðið á 10 mínútum, t.d. 2021-útgáfan af Hyundai Ioniq. Viðmiðið er að hleðsla við þessar stöðvar kosti 50 kr/kWst, en stærri stöðvar kosta 65 kr/kWst.

Þessi aðferð er alls ekki hentug hversdagslega, og hver hleðsla getur stytt hleðslugetu rafgeymisins. Yfirleitt er betra að hafa aðferðar 3 hleðslustöð heima fyrir og hlaða að nóttu til, enda tekur daghleðsla oft ekki meir en 2 tíma. Sömuleiðis gæti verið hentugt að hafa hleðslustöð við vinnustað og koma að bílnum fullhlöðnum eftir vinnudaginn. Allajafna er gert ráð fyrir því að langflestar hleðslur fari ekki fram við tilgreindar stöðvar þar sem þú bíður eftir bílnum, heldur þar sem þú gerir eitthvað annað á meðan. Til dæmis eru hleðslustöðvar við Kringluna og Smáralind, enda getur góð ferð í mollið tekið klukkustundir.

Tengi og klær

Gerð 1

Gerð 1 kló, lýsing að neðan Kaninn og grannar notast nær eingöngu við helmingi lægri spennu og að mestu tvo fasa. Svo það sé örugglega ekki villst á neinu og ekkert fari úrskeiðis eru því notuð önnur tengi þar en hér, og allir bílar sem eru ekki frá Tesla nota Gerð 1. Á Gerð 1 klónni er hak sem festist við tengið, og til að taka hakið frá þarftu að ýta á takka sem samstundis gefur merki til staurs að nú sé hakið frá, hætta hleðslu strax.

Þetta tengi er með 5 pinna, þ.e. tvo fyrir gögn, ein jörð og tveir fasar, nema einn fasinn sé núll. Með tvífasahleðslu geta þá kanabílarnir hlaðið á 240 voltum, eða einfasa á 120 voltum, eftir hleðsluaðferð 3.

Gerð 2

Gerð 2 kló Utan Ameríku er algengasta klóin Gerð 2. Þessi kló er með þrjá pinna fyrir fasa, tvo fyrir gögn, einn fyrir núll og einn fyrir varjörð. Bæði Gerð 1 og -2 notast við sömu gagnaflutningsstaðal, enda eru til ódýr millistykki sem breyta úr öðrum í hinn. Gerð 2 er einnig hannað fyrir hleðsluaðferð 3.

Tesla HA3

Tesla kló Þegar Tesla Roadster kom á Bandarískan markað átti enn eftir að staðla tengin tvö að ofan, og því voru þeir seldir með eigin tengi sem á að gera bæði aðferðir 3 og 4 eftir þörf. Þessi tengi eru enn á nýjum Bandarískum Teslabílum, en svo virðist sem Tesla eigi eftir hægt og bítandi að hætta notkun þeirra, þar sem hleðslustöðvar eru nú með annaðhvort með Gerð 1/2 eða CCS kló. Tesla tengið er gert bæði fyrir hleðsluaðferðir 3 og 4.

Combo 1 og -2, CCS

CCS 2 kló Comboklærnar eru útgáfur af Gerð 1 og -2 þar sem fyrir neðan eru tveir nokkuð stórir pinnar sem veita jafnstraum á hærra afli. Einnig er tómt loft í stað pinnanna þriggja sem á Gerð 2 veittu riðstraum. Þetta þýðir að sami bíll getur hlaðið samkvæmt aðferðum 3 og -4 án þess að bæta við heilu tengi, bílmegin er bara venjulega tengið ásamt þessum tveimur stóru pinnagötum. Comboklær eru hannaðar fyrir hleðsluaðferð 4. Þessar klær passa í tengi sem kallast CCS 1 eða 2, eftir því hvort fyrir ofan sé tengi af Gerð 1 eða -2. CCS stendur fyrir Combined Charging System.

CHAdeMO

Chademo kló CHAdeMO er Japanska svarið við spurningum hleðsluaðferðar 4. Gert er ráð fyrir Gerð 1 eða -2 tengi því við hlið. CHAdeMO tengið hefur sjö gagnapinna og tvo pinna fyrir jafnstraum. Þessi staðall er á útleið, þar sem að Nissan hefur yfirgefið hann, og verður þá Mitsubishi eina fyrirtækið sem enn á eftir að skipta yfir í CCS. Einn helsti kostur CHAdeMO er að samskipti eru gerð eftir CANBUS-staðli, sem er þegar vel þekktur í bílaiðnaði, þar sem skynjarar og tölvur um borð í bílum notast við CANBUS, allt frá stöðlun OBD-2 á níunda áratugnum. Eftir því hvern þú spyrð þá stendur CHAdeMO annaðhvort fyrir "CHArge de MOve", og vitnar þá í eðli staðalsins sem ferðahleðslustaðall, eða "O cha demo ikaga desuka" - "má ekki bjóða þér tebolla?" þýtt úr Japönsku, og vitnar þá í að hleðslan á bara að taka jafnlangan tíma og tekur að fá sér bolla og meððí.

Orkuveitur

Rafbílar eru enn ákveðin tískueign, og bundnir við orðræðu Kísildals, oft stýrð af fólki sem vill endurnefna strætisvagna og lestir og þykjast hafa fundið upp eitthvað nýtt. Með því koma viðskiptavenjur Kísildals - allar söluvörur eru leiga á vörunni og notandinn. Ekkert er þess virði að selja ef viðskiptavinur er ekki söluvara til handa failsona áhættufjárfesta. Lágrétt heildun, allstaðar.

Ísorka

Ísorka átti lengi í erfiðleikum með að fylgja ekki þessu módeli heildstætt, og þá þurfti til dæmis að halda síma í netsambandi svo hleðsla gæti farið í gang. Þetta hefur snarbatnað, og RFID-lykill þeirra virkar nú eins og ætti: Tengja, snerta, og hleðsla fer í gang.

Appið er enn nokkuð ágengt hvað varðar söfnun persónuupplýsinga og ég mæli með að nota frekar vefkort þeirra eða BRP ef þig vantar að finna hleðslu.

Orkubú Vestfjarða, Orkusalan

Auk eigin stöðva sér Ísorka einnig um rafræna vöktun á hleðslustöðvum Orkubús Vestfjarða og sumum Stoppustuðum Orkusölunnar. Þessar stöðvar eru á korti Ísorku. Flest þeirra, allavega. Sum Stoppustuðin eru ekki á kortinu, t.d. stöðin á Vopnafirði. Ekki bætir úr skák að kort Orkusölunnar er blindandi, litað mjög ljósgrátt með hvítum vegum án útlína innanbæjar. Orkusalan beytti sér fyrir rafbílavæðingunni með því að gefa hverju sveitafélagi hleðslustöð en dreyfing þeirra er sumstaðar misjöfn. Til dæmis er hleðslustöð þeirra á Ísafirði í göngufjarlægð frá stöð ON, og jafnframt er engin stöð á Þingeyri, sem þýðir að leiðin frá Flókalundi til Ísafjarðar er mér lokuð.

ON, Orka Náttúrunnar

ON er helsti samkeppnisaðili Ísorku, með eigin kort og eigin lykil. Lykillinn er einnig ókeypis, og kemur með afslætti af heimarafmagni, þannig að jafnvel ef þú átt ekki rafbíl gæti borgað sig að fá lykil hvorteðer. Kort ON er einkennilegt í því að það sýnir ekki hleðslustöðvar án nettengingar. Lykill ON var lengi auðveldari í notkun en Ísorku, en eftir uppfærslur eru þeir nú hér um bil eins.

Bensínstöðvarnar

Ísorka, Orkusalan og ON hafa einnig sett upp hleðslustöðvar hjá hinum og þessum bensínstöðvum. Tvær þessara eru merktar á korti Olís, þótt fleiri Olísstöðvar hafi hleðslustöðvar á korti Ísorku, en Orkan merkir engar hleðslustöðvar, aftur á móti sést hleðslustöð Staðarskála á korti N1, en ekki ON.

N1 er í einkennilegri stöðu, þar sem fyrirtækið virðist hafa keypt staura af ON, en ekki alveg lagt í a'ð fá fagmenn í að klára greiðslukerfið. Til dæmis fer gamli staurinn við Skógarlind 2 enn í gang með lykli ON. Sömuleiðis er N1 með víðtækan samning við Tesla á Íslandi, og kortlagning þeirra virðist pínu óljós.

Óháða kortið, Plugshare

Plugshare er skrítin nauðsyn. Þetta er smáforrit sem sýnir kort af flestum hleðslustöðvum, allavega hér á landi. Plugshare er einnig með samninga við hinar og þessar hleðsluveitur utanlands þannig að hægt er að greiða fyrir hleðslu gegnum forrit Plugshare. Túristagildrur, ríkisstofnanir, verslunarmiðstöðvar - hin og þessi fyrirtæki bjóða upp á ókeypis hleðslu á bílastæðum og þau finnast á Plugshare.

Plugshare er ekki miðað til að koma öllum hleðslustöðvum á einn stað, Plugshare er byggt á sjálfgleði...sumra rafbílaeigenda, ókey, flestra rafbílaeigenda, "sjá hvað ég hef safnað mörgum hleðslustöðvum, ligga ligga lá", Foursquare fyrir karlmenn með fade eftir að hafa rakað af manbunnið.

Allavega.

Þetta þýðir að margar stöðvar eru einfaldlega ekki á kortinu, margar þeirra sem eru á korti Plugshare eru í einkaeign og merktar sem almenningsgagn, margar þeirra eru illa merktar eða tvímerktar, margar merktar stöðvar eru svo fyrir utan verslanir þannig að með fylgir spurningin hvort bílastæðið sé tímatakmarkað, eða hvort þér þyki skömmustulegt að leggja fyrir utan búð og svo ekki kaupa neitt. Enn ein varan sem hefði kostað almenning mun minni pening og gert meira gagn sem þjónusta af hendi ríkisstjórnar, líkt og Símaskráin.

Allt í allt þá þýðir þetta að til að komast í heildarmynd yfir hleðslustöðvar landsins þarft þú að rýna í 5 mismunandi kort, sem oft skarast - þ.e. eru með sameiginlegar stöðvar en aðrar stöðvar útaf fyrir sig. Kort Ísorku skarast við kort Orkusölunnar og innan Ísorkukortsins eru kort Olís og Orkubús Vestfjarða. Kort ON skarast við kort N1, og kort Plugshare skarast við öll hin með upplýsingar frá túristum og Jón Útí Bæ. Ekkert eitt þeirra gefur heildarmynd, og ólíkt bensínstöðvum eru hleðslustöðvar oftast lítt merktar úti á götu.

En hvað ef nei; Better Route Planner

Better Route Planner er allt í allt betri hugmynd en Plugshare. Tilgangur forritsins er ekki að safna hleðslustöðvum, heldur að finna leið sem passar við bílinn þinn. Þú slærð in bílinn, punkta A og B og forritið skipuleggur leið sem minnkar hleðslutímann á ferð. BRP er ekki alveg fullkomið, tekur til dæmis ekki aldur bíls í reikninginn, en viðmótið er til fyrirmyndar.

Göt á Hringveginum og drægnihvíði

Ég er ekki sjálfur á nýjum bíl. Ég er á 7 ára verslunarkerru sem átti í fyllstu bjartsýni að komast 160 km ný en dregur nú 80-100 eða svo, kannski lengra á flötum veg. Þetta þýðir að tvö göt loka af hringveginn fyrir mér: Mývatnsöræfi og Starmýri. Það er, leiðin milli Höfn í Hornafirði og Djúpavogs; og leiðin milli Mývatns og Skjöldólfsstaðar. Sem betur fer vantar mig ekki oft að komast til Egilsstaða, og nýrri rafbílar draga þessar leiðir auðveldlega. Til dæmis dregur glænýr Honda e 220 km á blaði, meir en nóg til að komast allan hringinn með hleðslustoppum.

Með öðrum orðum þá ætti drægnihvíðinn svokallaður að heyra sögunni til fyrir flesta eigendur, þar sem að bilið milli flestra stöðva er innan við 60 km. Drægni nýrra bíla er ávallt að aukast, og hvert augnabil er í raun besti tími hingað til að taka rafvæðingunni með opnum örmum.

Tilvitnanir

https://www.veitur.is/hugtok


mosafeti hlóð þessu inn 2022 Sep Sun 04
eyrnamerkt: rafbílar daglegt líf